Íslenskir matreiðslunemar kynnast katalónskri matargerð

Íslenskir matreiðslunemar kynnast katalónskri matargerð

21 mars 2017

Markaðsverkefnið Bacalao de Islandia hefur unnið talsvert með matreiðsluskólanum CETT í Barcelona. Skólinn, sem er hluti af Universidad de Barcelona, er á meðal stærstu og virtustu skólum sinnar tegundar Í Katalóníu. Í byrjun síðasta árs fór fram kynning í skólanum á íslenskum söltuðum þorski og í kjölfarið hafa tveir nemendur skólans komið til Íslands á vegum markaðsverkefnisins í þjálfun á íslenskum veitingastöðum. Í haust var svo næsta skref tekið þegar haldin var sérstök keppni í því að elda íslenskan saltfisk. Í verðlaun var ferð til Íslands fyrir sigurvegarann – með því skilyrði að hann myndi endurskapa sigurréttinn fyrir íslenska matreiðslunema.

Neminn, Carlos Hidalgo, og kennari hans, Oscar Teixido, komu svo í síðustu viku til landsins. Þeir fengu að kynnast uppruna íslenska þorskins og íslenskri matargerð eins og hún gerist best. Síðast en ekki síst leiddu þeir eins konar saltfisk sýnikennslu fyrir nemendur á matreiðslubraut í Menntaskólanum í Kópavogi. Um er að ræða nýstárlegan rétt sem er þó byggður á katalónskum hefðum. Katalóníubúar hafa á að skipa gríðarlega mikilli þekkingu og hefð þegar kemur að því að elda saltfiskrétti – þekkingu sem vel er þess vert að sækja, enda sífellt fleiri Katalóníubúar sem sækja landið heim. Vel tókst til og góður rómur gerður af uppátækinu. Rétturinn var svo borinn fram sem hluti af hádegismatseðli fyrir gesti í skólanum. í kjölfarið var fundað með skólayfirvöldum þar sem frekara samstarf milli þessara skóla var rætt.

Beint í kjölfar heimsóknarinnar fóru svo í gang sérstakir kynningardagar á íslenskum söltuðum þorski þar ytra í CETT. Þessa daga fá nemendur skólans að elda úr þessu vinsæla hráefni á hverjum degi og það er á boðstólum á veitingastað sem er rekinn samhliða skólanum. Þessi veitingastaður er opinn fólki af götunni og sjá nemendur um allt frá innkaupum til eldamennsku undir styrkri leiðsögn kennara. Þar geta gestir fengið sérstakan föstumatseðil, þar sem íslenski saltfiskurinn er í aðalhlutverki, enda hefur hann löngum verið vinsæll á þessum árstíma. Þar að auki gefur markaðsverkefnið nemum svuntur og annað markaðsefni tengt verkefninu liggur fyrir.

Matreiðslumenn eru mikilvægur markhópur markaðsverkefnisins, enda eru það þeir öðrum fremur sem koma til með að nota þetta vinsæla hráefni í framtíðinni. Til þess að viðhalda þeim sterku hefðum sem eru til staðar á þessu svæði er mikilvægt að þeir kynnist saltaða þorskinum og fái að vinna með hann strax í byrjun ferilsins.