Fishmas og farsælt samstarf við Waitrose í Bretlandi

Fishmas og farsælt samstarf við Waitrose í Bretlandi

26 október 2021
Fishmas og farsælt samstarf við Waitrose í Bretlandi

Núna á dögunum fór fram kynning á íslenskum þorski í samstarfi við bresku smásölukeðjuna Waitrose. Kynningin er hluti af sameiginlegri markaðssetningu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja undir yfirskriftinni „Fishmas“. Að baki Fishmas er markaðsverkefnið Seafood from Iceland sem samanstendur af um 30 fyrirtækjum í veiðum, vinnslu, sölu og þjónustu við sjávarútveginn, ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Íslandsstofu.

Erla Ylfa Óskarsdóttir starfsmaður sendiráðs Íslands í London hélt kynningu um Fishmas verkefnið og sagði frá eiginleikum íslenska fisksins sem veiddur er á sjálfbæran hátt. Nokkrum breskum mataráhrifavöldum var boðið í Waitrose Cookery School þar sem kokkur á vegum Waitrose var með sýnikennslu á því hvernig á að elda fish & chips úr íslenskum þorski. Þátttakendurnir voru himinlifandi með viðburðinn, tóku virkan þátt og elduðu allir fish & chips sem þeir snæddu saman og fengu íslenskan bjór með. Myndum og myndböndum frá viðburðinum var síðan deilt á Instagramsíðum áhrifavaldanna.

Vonir standa til að samstarf Seafood from Iceland og bresku smásölukeðjunnar Waitrose marki upphafið að farsælu kynningarstarfi á íslenskum fiski í Bretlandi, en mikil ánægja var með viðburðinn og samstarfið, að sögn Natalie Mullins framkvæmdastjóra hjá Waitrose Cookery School. Waitrose er ein af fáum verslunarkeðjum í Bretlandi sem er með stöðugt framboð á ferskum íslenskum fiski í sínum verslunum. Waitrose þekkja Ísland og íslenska fisksins vel og leggja mikla áherslu á að upplýsa viðskiptavini sína um uppruna hans og gæði. Slíkt kynningarsamstarf er ómetanlegt og án efa farsælasta leiðin til að auka vitund um íslenskan fisk í hugum erlendra neytenda.