Ábyrgar fiskveiðar á fundi Europeche

Ábyrgar fiskveiðar á fundi Europeche

13 október 2016

Á dögunum þáðu Hrefna Karlsdóttir hjá Ábyrgum fiskveiðum ses. (ÁF) og Brynjólfur Eyjólfsson stjórnarformaður ÁF boð frá Europeche um að heimsækja félagið og kynna starfsemina og vottunarverkefni ÁF. Europeche, sem er með aðsetur í Brussel, er félag hagsmunasamtaka sjávarútvegsfyrirtækja í aðildarlöndum ESB. Fundinn sátu m.a. formenn og fulltrúar hagsmunasamtaka sjávarútvegsfyrirtækja frá Skotlandi, Spáni, Hollandi o.fl.

Hrefna kynnti upphaf og starfsemi vottunarverkefnis ÁF. Einnig fór hún yfir mikilvægi þess að vottunarverkefni fari eftir þeim alþjóðlega viðurkenndu viðmiðum sem gilda um fiskveiðistjórnun og fylgi leiðbeiningum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sþ (FAO) um vottun ábyrgra fiskveiða. Fundarmenn voru áhugasamir um efnið og fór töluverður tími í umræður og spurningar en greinilegt er að mönnum er efnið hugleikið.