Vottun

Árið 2007 var yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga gefin út, en hana undirrituðu sjávarútvegsráðherra, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, fiskistofustjóri og formaður Fiskifélag Íslands.  Yfirlýsingin var svar við kröfum markaða um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og hafði þann tilgang að upplýsa kaupendur um hvernig stjórnun fiskveiða er háttað á Íslandi og að stjórnunin væri byggð á bestu vísindalegri þekkingu. Jafnframt kemur fram að íslensk stjórnvöld skuldbindi sig að fara að öllum alþjóðalögum og samningum um umgengni við auðlindir sjávar, sem þau hafa undirritað.

Stjórnun fiskveiða á Íslandi byggist í aðalatriðum á víðtækum rannsóknum á fiskistofnum og vistkerfi hafsins, ákvörðunum um veiðar og afla á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og öflugu eftirliti með veiðum og heildarafla. Þetta eru þær meginstoðir íslenskrar fiskveiðistjórnunar sem ætlað er að tryggja ábyrgar fiskveiðar og viðhald auðlinda hafsins til framtíðar. 

Markmið

Meginmarkmið með vottun Ábyrgra fiskveiða er að standa vörð um alþjóðlega viðurkennd grundvallaratriði í stjórnun fiskveiða, staðfesta ábyrga stjórnun á veiðum íslenskra skipa innan íslenskrar efnahagslögsögu og úr deilistofnum og stuðla að samfélagslegri vitund og samkomulagi um mikilvægi ábyrgrar fiskveiðistjórnunar.

Byggð á alþjóðlegum viðmiðunarreglum FAO

Vottunarferlið er unnið samkvæmt ströngustu alþjóðlega viðurkenndum kröfum. Staðlar eru unnir samkvæmt siðareglum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og leiðbeiningum FAO um umhverfismerkingar og vottun vegna veiða úr villtum stofnum. Um er að ræða vottun óháðs þriðja aðila sem er sú tegund vottunar sem gerir mestar kröfur um hlutlægni í mati á viðfangsefninu. Samið var við Global Trust Ltd. á Írlandi um samstarf um þróun vottunarferilsins. Fyrirtækið er óháður vottunaraðili og sérstaklega faggiltur af alþjóðlega viðurkenndum faggildingaraðila til að sinna vottun af þessu tagi. Vottunarverkefni Ábyrgra fiskveiða hefur staðist mat Global Sustainable Seafood Initiative (GSSI) og hefur þar með hlotið formlega viðurkenningu af hálfu GSSI. 

Að sækja um vottun á rekjanleika afurðanna (Chain of Custody)

Öll fyrirtæki í virðiskeðju íslenskra sjávarafurða þurfa að sækja um heimild til að nota vottunina og auðkenni vottunar, ætli þau að nota þetta markaðstæki við sölu- og markaðssetningu afurða úr vottuðum stofni. Hægt er að sækja um þessa heimild að undangenginni úttekt á rekjanleika afurðanna (Chain of Custody audit) og staðfestingu slíkrar vottunar.

Sjá nánar um vottun á enska hluta vefsins.