Vottunarverkefni ÁF í úttektarferli hjá GSSI

26 ágúst 2016

Fyrr á árinu sóttu Ábyrgar fiskveiðar ses (ÁF) um viðurkenningu af hálfu Global Sustainable Seafood Initiative (GSSI) á vottunarverkefni ÁF (Iceland Responsible Fisheries Certification Programme). Það ferli er nú langt komið og hefur m.a. falið í sér heimsókn óháðra sérfræðinga frá GSSI og úttekt á starfsemi og stöðlum ÁF. Niðurstaða sérfræðinganna og úttektarnefndar GSSI var sú að vottunarprógramm ÁF stæðist kröfur GSSI. Skýrsla GSSI um vottunarprógramm ÁF er nú birt til umsagnar í fjórar vikur, en að því loknu mun stjórn GSSI tilkynna lokaniðurstöðu.

GSSI er alþjóðlegur samvinnuvettvangur verslanakeðja, félagasamtaka, sérfræðinga, opinberra og alþjóðlegra stofnana. Markmiðið með GSSI er að skapa traust á vottuðum sjávarafurðum sem og að stuðla að vönduðum vinnubrögðum við vottun.