Taílensk sendinefnd kynnir sér fiskveiðistjórnun og vottunarverkefni

12 september 2016

Á dögunum kom til landsins taílensk viðskiptasendinefnd, en hana leiddi sendiherra Taílands gagnvart Íslandi. Meðal þess sem sendinefndin gerði hér á landi var að kynna sér íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið og vottunverkefni undir merkjum Iceland Responsible Fisheries.

Á fundi sem Ábyrgar fiskveiðar (ÁF) skipulögðu í samstarfi við Íslandsstofu 6. sept. sagði Finnur Garðarsson hjá Ábyrgum fiskveiðum stuttlega frá stofnun og starfsemi ÁF. Síðan héldu Dr. Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur hjá SFS og Hrefna Karlsdóttir hjá ÁF fyrirlestra og fræddu gesti um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið og vottunverkefnið. Í lokin svöruðu fyrirlesarar spurningum gesta sem voru greinilega áhugasamir um að nýta reynslu og þekkingu Íslendinga á þessu sviði.

Fundurinn var hluti af dagskrá sendiherra Taílands gagnvart Íslandi, frú Vimon Kidchob, til landsins en með henni í för voru sendiherrar Taílands á Norðurlöndunum ásamt ráðuneytisstjóra úr Utanríkisráðuneyti Taílands og sendifulltrúum frá sendiráðum Taílands í Brussel, London og Vín. Einnig var haldið málþing um tækifæri til að auka viðskipti milli landanna auk þess sem stofnað var Íslenskt-taílenskt viðskiptaráð.