Staða og framtíð þorsksins rædd á ráðstefnu í Portúgal

Staða og framtíð þorsksins rædd á ráðstefnu í Portúgal

1 nóvember 2016

Íslenskur þorskur átti sinn sess á ráðstefnu sem fór fram í Ílhavo í Portúgal dagana 21.-22. október sl. Ráðstefnan bar heitið O Bacalhau: História e Futuro eða „Þorskurinn – sagan og framtíðin“.  Fulltrúi Íslands á ráðstefnunni var Guðmundur Gunnarsson, formaður Íslenskra saltfiskframleiðenda (ÍSF) og nýsköpunarstjóri Skinneyjar-Þinganes sem flutti sitt erindi á málstofu um markaðinn og neysluhegðun, en ráðstefnan var haldin í sjóminjasafninu í Ilhavo.

Markaðsverkefninu um saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu, sem Íslandsstofa hefur umsjón með, barst ósk um að útvega fyrirlesara á ráðstefnuna sem fulltrúa Íslands. Í erindi sínu kom Guðmundur m.a. inn á mikilvægi Suður Evrópu fyrir íslenska þorskinn, en þar eru sterkustu markaðirnir sögulega séð. Hann rakti sögu Portúgalsmarkaðar fyrir Íslendinga, sem var löngum einn af sterkustu mörkðunum og reyndi að leita skýringa á því hvers vegna hlutdeild Portúgals í heildarútflutningi á íslenskum þorski hafi dregist saman á síðustu árum. Meðal skýringa taldi hann vera aukna áherslu Íslendinga á vinnslu á ferskum þorski.

Guðmundur fjallað einnig um saltfiskvinnsluna í sögulegu ljósi en hann kemur frá Höfn í Hornafirði þar sem saltfiskvinnsla hefur sett sinn svip á samfélagið í langan tíma og gerir enn. Guðmundur lagði áherslu á mikilvægi nýsköpunar og þróunar sem byggir á þeim hefðum sem þjóðirnar hafa þróað sín á milli í viðskiptum með saltfisk allt frá því á nítjándu öld.  Að lokum sagði Guðmundur frá markaðsverefninu „Saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu“ sem Íslandsstofa hefur unnið að síðustu þrjú árin í samstarfi við framleiðendur og söluaðila en þar er einmitt mikið gert úr hefðum og menningu við saltfiskvinnslu í íslenskum þorpum.

Fundinn sóttu aðilar í saltfiskbransanum sem og úr háskólasamfélaginu.