SGS afhenti Ábyrgum fiskveiðum ses. (IRF) skírteini sem staðfestir að vinnuumhverfi áhafna fiskiskipa SFS og LS uppfylli kröfur staðalsins FISH Standard for Crew

SGS afhenti Ábyrgum fiskveiðum ses. (IRF) skírteini sem staðfestir að vinnuumhverfi áhafna fiskiskipa SFS og LS uppfylli kröfur staðalsins FISH Standard for Crew

12 mars 2024

Reykjavík – 11. mars 2024 – SGS afhenti Ábyrgum fiskveiðum ses. (IRF) skírteini sem staðfestir að vinnuumhverfi áhafna fiskiskipa SFS og LS uppfylli kröfur staðalsins FISH Standard for Crew sem byggir á alþjóðasamþykkt ILO 188 um vinnuskilyrði fiskimanna. Skírteini IRF er það fyrsta fyrir sjávarútvegsfyrirtæki í Evrópu.

Vottunin mun ná til allra skipa félagsmanna SFS og um helming bátaflota LS í fyrstu, en hinn helmingur smábátaflotans mun bætast við skírteinið fyrir árslok 2024. Félagsmenn SFS og LS hafa aðgang að þessu skírteini og geta vísað til þess sem staðfestrar úttektar þriðja aðila á vinnuaðstæðum áhafna á skipum sínum í samskiptum við kaupendur sjávarafurða.

FISH Standard for Crew er staðall sem byggir á sjálfstæðri úttekt og vottun þriðja aðila sem nær til vinnuskilyrða fiskimanna um borð í fiskiskipum. Staðallinn byggir á kröfum alþjóðasamþykktar ILO 188 um vinnuskilyrði fiskimanna sem nær til margvíslegra atriða sem taka til vinnuumhverfis áhafnar og að hún búi við mannsæmandi kjör. Til dæmis að gerðir séu ráðningarsamningar, vistarverur og fæði sé í lagi, áhöfn hafi aðgang að læknishjálp og gætt sé að öryggi og slysavernd um boð. Fiskimannasamþykkt ILO 188 er eini alþjóðlega viðurkenndi alþjóðasamningur sem nær til vinnuumhverfis fiskimanna um borð í fiskiskipum.

Úttektaraðilar SGS hafa unnið mikla vinnu á síðastliðnu ári og voru tvær vikur á Íslandi síðastliðið haust og fóru þá um borð í níu skip um allt land og ræddu við áhafnir þeirra.

“FISH-vottunin felur í sér sjálfstætt ferli sem sýnir fram á að fyrirtækin hafa náð og viðhaldið góðri frammistöðu hvað varðar sanngjarna og samfélagslega ábyrga starfshætti,“ er haft eftir Cormac O'Sullivan, sem er framkvæmdastjóri vottana sjávarútvegs hjá SGS.

„Við erum stolt af því að hljóta FISH vottunina, viðurkenning sem staðfestir langvarandi skuldbindingu aðildarfélaga Ábyrgra fiskveiða um ábyrgar og mannsæmandi vinnuaðstæður áhafna á skipum félagsmanna okkar,“ segir Friðrik Friðriksson, formaður Ábyrgra fiskveiða ses. „FISH vottunarferlið var krefjandi, en hagnýtt og sanngjarnt, og ýtti undir frekari umbætur í umhverfi þar sem við gerum miklar kröfur í dag.“

„Hamingjuóskir til IRF og félagsmanna SFS og LS. FISH er eitt af þeim verkfærum sem fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi geta notað til að sýna viðskiptavinum og hagsmunaaðilum fram á að sjávarafurðir séu veiddar af ábyrgum aðilum hvað varðar vinnuaðstæður áhafna um borð í skipum félagsmanna“ er haft eftir Mike Kraft, framkvæmdastjóra FISH Standard for Crew.

Kaupendur sjávarafurða, sérstaklega í Evrópu, gera síauknar kröfur um að sýnt sé fram á að sjávarafurðir séu ekki aðeins veiddar með ábyrgum hætti, heldur líka að gætt hafi verið að félagslegu umhverfi áhafna fiskiskipa (social audit). Með því að styðjast við úttekt óháðs þriðja aðila samkvæmt staðli FISH Standard for Crew, þá gefur það aukið traust og staðfestingu á að vinnuskilyrði áhafna fiskiskipa uppfylli alþjóðlegar kröfur.

 

Fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við

Friðrik Friðriksson, formaður ÁF (fridrik@brim.is)

 

Um FISH Standard for Crew

FISH Standard for Crew býður upp á sjálfstætt og viðurkennt vottunarkerfi þriðja aðila fyrir vinnuskilyrði fiskimanna á fiskiskipum. FISH staðallinn byggir á kröfum fiskimannasamþykktar ILO 188 og er í lokaferli að fá viðurkenningu SSCI fyrir starfrækslu staðals sem nær til starfa á sjó.

 

Um Ábyrgar fiskveiðar ses. (IRF)

Ábyrgar fiskveiðar ses. á tvo staðla, staðal um stjórn fiskveiða og rekjanleikastaðal sem nær til fiskistofna innan íslensku efnahagslögsögunnar. Stofnaðilar IRF eru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Landssamband smábátaeigenda (LS). IRF rekur þessa staðla og vörumerki tengdum þeim, ber ábyrgð á tæknilegri vinnu, forskriftum og samskiptum við vottunaraðila o.fl. IRF var falið árið 2021 að undirbúa og vinna að því að ná FISH Standard for Crew vottun fyrir hönd stofnfélaga sinna.

 

Um SGS

SGS – er leiðandi eftirlits-,  prófunar-, skoðunar- og vottunarfyrirtæki í heiminum. Hjá félaginu starfa um hundrað þúsund starfsmenn á um 2.600 starfsstöðvum um heim allan. SGS er frumkvöðull í að sinna félagslegum úttektum staðla eins og FISH Standard for Crew.