Meistaraprófsverkefni um saltaðar þorskafurðir
„Saltaðar þorskafurðir í Madrid“ er heiti á meistaraprófsritgerð Kristins Björnssonar sem hann vann í námi sínu í alþjóðaviðskiptum við Háskólann í Reykjavík, en Kristinn útskrifaðist með meistaragráðu í júní 2015. Verkefnið, sem var unnið í samstarfi við Íslandsstofu, fjallaði um útflutning á íslenskum saltfiski til Spánar og beindist rannsókn hans einkum að Madrid. Verkefnið tengdist markaðsverkefni sem Íslandsstofa leiðir og er unnið með framleiðendum og söluaðilum saltaðra þorskafurða inn á Suður Evrópu. Skipta má rannsókn Kristins í tvo hluta: spurningakönnun á meðal neytenda og viðtöl við matreiðslumenn. Hann kannaði ímynd íslenskra saltfiskafurða m.v. samkeppnislönd og bar niðurstöðuna einnig saman við stöðuna í Katalóníu. Niðurstöður verkefnisins munu nýtast vel í frekari markaðsaðgerðum á næstu mánuðum á Spáni.
Þá skrifaði Kristinn grein í Morgunblaðið og sagði þar frá matreiðsluhefðum í Madrid og heimsókn sinni á nokkra úrvals veitingastaði sem bjóða upp á saltfisk á matseðli sínum. Þar birtir hann m.a. uppskrift að Ajoarriero sem hefur gengið óbreytt milli ættliða í heila öld.