"Bragðaðu Ísland" - kynningarsamstarf í Baskalandi

23 maí 2018

Dagana 23. apríl til 6. maí sl. átti markaðsverkefnið Bacalao de Islandia í samstarfi við níu veitingastaði í Baskalandi á Spáni þegar íslenskur fiskur var á boði á stöðunum sem buðu upp á fjölbreytta saltfiskrétti úr gæðahráefni frá Íslandi. Samstarfið var kynnt undir nafninu Saborea Islandia (bragðaðu Ísland).

Markmiðið var að treysta tengslin við staðina og kokkana og veita stöðunum tækifæri á að leggja enn meiri áherslu á gæðahráefnið og kynna íslenskan uppruna fisksins. Íslenskur þorskur hefur löngum verið mikils metinn í Baskalandi á Spáni. Þaðan koma enda margir af vinsælustu saltfiskréttum Spánverja, þar a meðal bacalao al pil-pil og a la Vizcaina. Þaðan koma líka margir af frægustu kokkum Spánar og þar má finna virtustu matreiðsluskólana, þar á meðal Basque Culinary Center, en þar fengu verðandi kokkar síðastliðið haust kynningu á íslenskum þorski í boði Bacalao de Islandia, markaðssamstarfs í kynningu á þorski í Suður Evrópu sem hefur staðið frá árinu 2013.

Auk veitingastaðanna komu að verkefninu ræðismaður Íslands í Bilbao og almannatengslaskrifstofa á svæðinu. Blaðamannafundur var haldinn þann 24. maí í glæsilegum húsakynnum Mercado La Ribera í miðborg Bilbao og fékk framtakið mikla og góða kynningu í fjölmiðlum og hjá bloggurum. Meðal annars birtist þessi grein í vefmiðlinum Very Bilbao. Þar að auki var mikið fjallað um viðburðinn á samfélagsmiðlum, til dæmis hjá Descubre Getxo. Þá mættu einnig fulltrúar frá borgaryfirvöldum í Getxo og Bilbao. 

Myndir frá fundinum má einnig sjá á Facebook síðu verkefnisins

Til að kynna framtakið enn frekar tóku veitingastaðirnir þátt í kynningu 26. og 27. apríl með Bacalao de Islandia í miðborginni, á Plaza Indautxu. Þar elduðu kokkarnir á veitingastöðunum fjölbreytta rétti úr íslenska hráefninu og gáfu almenningi að smakka og dreift var kynningarefni um veitingastaðina og íslenska fiskinn. Fólki var boðið að taka þátt í leikjum á samfélagsmiðlum og fræðast um gæði íslensks þorsks. Nokkur þúsund manns komu og fylgdust með kokkunum elda en líka var hægt að fylgjast með á Facebook en um 60.000 manns horfðu á beinar útsendingar frá viðburðinum á Facebook síðu verkefnisins. Fleiri myndir frá viðburðinum má sjá hér og hér.