Áhugavert erindi um franska markaðinn

10 júní 2013

Föstudaginn 7. júní stóð Íslandsstofa fyrir kynningarfundi um franska markaðinn fyrir sjávarafurðir.  Fundurinn fór fram í Víkinni sjóminjasafni og var ágætlega sóttur af fulltrúum framleiðenda, sölufyrirtækja o.fl.

Marie Christine Monfort, sem hefur meira en 20 ára reynslu af ráðgjöf í markaðssetningu sjávarafurða, fór m.a. yfir einkenni franska markaðarins, kröfur neytenda, helstu vörumerki og einkenni smásölumarkaðarins auk þessa að gera grein fyrir markaðs- og kynningarstarfi á franska markaðnum. Í lok fundarins fóru fram opnar umræður um hvaða tækifæri íslenskar sjávarafurðir eiga á franska markaðnum.

Í erindi Marie Christine kom fram að stöðugleiki einkennir franska markaðinn. Um 90% af þeim sjávarafurðum sem eru á markaðnum eru innfluttar en hlutfall Íslendinga á markaðnum er um 5% þegar horft er til verðmæti innflutnings. Þá eru Íslendingar stærstir á Frakklandsmarkaðnum þegar kemur að ferskum þorskflökum.

Þá kom einnig fram að engin áberandi íslensk vörumerki eru á markaðnum en almennt má segja um franska markaðinn að þar séu mjög fá sterk vörumerki fyrir sjávarafurðir. Franskir neytendur eru einnig mjög ómeðvitaðir um hvaðan fiskurinn sem þeir borða á uppruna sinn. Margir telja fiskinn vera frá Frakklandi en einnig nefna margir Noreg.

Vörumerkið NORGE er það vörumerki sem er hvað mest áberandi á franska markaðnum en einnig má nefna Pavillon France. Norðmenn hafa m.a. notað myndbönd, samfélagsmiðla, plaköt og kynningaefni á matseðlum og sýndi Marie Christine dæmi um slíkt á fundinum.

Í lok fundarins var komið aðeins inn á tækifæri Íslendinga á markaðnum. Þar gerði Marie Christine gestum fundarins ljóst að Íslendingar myndu aldrei geta beitt sömu aðferðum og Norðmenn í kynningarstarfi á franska markaðnum frekar en á öðrum mörkuðum. Þar yrðu Íslendingar að fara aðrar leiðir, vera klókari varðandi nýtingu fjármagns og umfram allt  leggja áherslu á gæðin sem einkenna íslenskar sjávarafurðir. Áherslan á að vera á neytendur sem borga meira fyrir hágæða vöru.