Fiskveiðistjórnun

Fiskveiðistjórnun

Löng hefð er fyrir stjórnun fiskveiða á Íslandi og hefur stjórnkerfi fiskveiða verið í mótun um áratuga skeið með það að leiðarljósi að fiskveiðar séu í senn hagkvæmar og sjálfbærar með tilliti til nýtingar og viðhalds auðlinda.

Á Íslandi hefur verið byggt upp fiskveiðistjórnunarkerfi til að tryggja ábyrgar fiskveiðar sem fela í sér viðhald fiskistofna og góða umgengni um vistkerfi hafsins. Stjórnun fiskveiða á Íslandi byggist í aðalatriðum á víðtækum rannsóknum á fiskistofnum og vistkerfi hafsins, ákvörðunum um veiðar og afla á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og öflugu eftirliti með veiðum og heildarafla. Þetta eru þær meginstoðir íslenskrar fiskveiðistjórnunar sem ætlað er að tryggja ábyrgar fiskveiðar og viðhald auðlinda hafsins til framtíðar.

Ísland hefur tekið virkan þátt í umfjöllun um málefni hafsins á erlendum vettvangi og í mótun alþjóðareglna á sviði fiskveiða. Í íslenskum lögum er tekið fullt tillit til alþjóðasamninga við lagasetningu og framkvæmd fiskveiða og verndun sjávar.

Árið 2007 var yfirlýsing sett fram af ábyrgum aðilum í íslenskum sjávarútvegi, sjávarútvegsráðherra, Hafrannsóknastofnuninni, Fiskistofu og Fiskifélagi Íslands. Yfirlýsingin er liður í því að koma á framfæri upplýsingum um íslenskan sjávarútveg og hvernig unnið er að því að tryggja ábyrgar fiskveiðar og umgengni um vistkerfi hafsins umhverfis Ísland. Yfirlýsingunni er beint til allra þeirra sem er umhugað um ástand fiskistofna og ábyrgar fiskveiðar, sér í lagi þeim fjölmörgu aðilum sem kaupa og neyta íslenskra sjávarafurða. Hér verða rakin nokkur meginatriði úr yfirlýsingunni sem lýsa fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Aflamarkskerfið er hornsteinn íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins. Aflamarkskerfinu er ætlað að takmarka heildarafla þannig að ekki sé veitt meira úr fiskistofnum en stjórnvöld heimila hverju sinni.

Mat á stofnstærðum og vísindaleg veiðiráðgjöf er megin­grundvöllur ákvörðunar stjórnvalda um leyfðan heildarafla hvers árs. Á Íslandi sér Hafrannsóknastofnunin um rannsóknir á nytjastofnum sjávar og veitir stjórnvöldum ráðgjöf um veiði. Áður en ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar um heildarafla er birt ár hvert, er mat stofnunarinnar á stærð og ástandi helstu fiskistofna lagt fyrir nefndir Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES). Einnig er samráð haft við aðrar fjölþjóðlegar stofnanir, s.s. NEAFC og NAFO, þegar um er að ræða deilsitofna. Samstarf við alþjóðastofnanir á þessum vettvangi tryggir að Hafrannsóknastofnunin vinnur í samræmi við kröfur sem standast alþjóðleg viðmið.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveður leyfilegan heildarafla hvers árs fyrir hverja fisktegund. Í reglugerð ráðuneytisins er kveðið á um leyfilegan heildarafla hvers fiskveiðiárs. 

Fiskistofa annast framkvæmd laga og reglugerða um stjórnun fiskveiða á Íslandi og er ábyrg fyrir eftirliti með fiskveiðum og fiskvinnslu. Allur afli sem kemur að landi er vigtaður af löggiltum vigtunarmanni við löndun. Að vigtun lokinni skrá viðkomandi hafnaryfirvöld aflann í miðlægan gagnagrunn Fiskistofu, sem tryggir stöðuga yfirsýn yfir aflaheimildastöðu einstakra fiskiskipa og hversu mikið hefur verið veitt af leyfðum afla. Eftirlitsmenn Fiskistofu fylgjast með því að rétt sé að málum staðið við vigtun og skráningu afla. Til að tryggja gegnsæi eru upplýsingar um aflaheimildir hvers skips og notkun þeirra uppfærðar reglulega og gerðar opinberar og öllum aðgengilegar á vefsíðu Fiskistofu eins og mælt er fyrir um í lögum.

Víðtækt eftirlit er með veiðarfærum, samsetningu afla og meðferð hans um borð í veiðiskipum. Eftirlitsmenn hafa aðgang að afladagbókum sem tilgreina veiðistað, veiðidag, veiðarfæri og aflamagn. Leiði eftirlit í ljós að mikið af smáum fiski eða seiðum sé á miðunum getur Hafrannsóknastofnunin tafarlaust lokað viðkomandi svæðum tímabundið.

Landhelgisgæslan fylgist með veiðum skipa á Íslandsmiðum og svæðum sem lokuð eru fyrir veiðum. Þá hefur hún eftirlit með veiðarfærum, t.d. möskvastærð í netum.

Öllum þeim sem kaupa og/eða selja afla er skylt að skila skýrslum til Fiskistofu með upplýsingum um kaup, sölu og aðra ráðstöfun afla. Komi fram misræmi milli upplýsinga í ráðstöfunarskýrslum og upplýsinga frá hafnarvogum í gagnagrunni Fiskistofu, er gripið til aðgerða þegar tilefni er til. Þannig fást með óháðum samanburði upplýsingar um nákvæmni gagna um landaðan afla. Gott samræmi er milli upplýsinga Fiskistofu um afla og upplýsinga um heildarútflutning sjávarafurða sem skráðar eru á öðrum vettvangi. Þetta samræmi sýnir að upplýsingar um veiðar eru áreiðanlegar.

Brot á lögum og reglum um stjórn fiskveiða varða sektum eða sviptingu veiðileyfis, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot geta varðað fangelsi allt að 6 árum. Ef afli skips er umfram þær aflaheimildir sem viðkomandi skip hefur í einstökum tegundum, þarf útgerð skipsins að  verða sér úti um viðbótaraflaheimild fyrir viðkomandi fisktegund. Ef það er ekki gert innan tilgreinds tíma, kemur til sviptingar á veiðileyfi auk þess sem greiða þarf gjald vegna hins ólögmæta afla.

Sérstakar reglur gilda um gerð og útbúnað veiðarfæra í því skyni að koma í veg fyrir skaðlegar veiðar, s.s. veiðar á smáfiski. Af slíkum toga eru t.d. reglur um lágmarksmöskvastærðir og notkun smáfiskaskilja. Komi í ljós við eftirlit að hlutfall smáfisks í afla eða meðafli sé yfir ákveðnum viðmiðunarmörkum getur Hafrannsóknastofnunin ákveðið skyndilokun á viðkomandi veiðisvæði til skemmri tíma og tekur bann við veiðum þá gildi innan fárra klukkustunda. Ef smáfiskur eða meðafli reynist ítrekað yfir viðmiðunarmörkum er viðkomandi svæði lokað til lengri tíma.

Ýmsar svæðalokanir eru í gildi til lengri tíma og eru ákvarðanir um slíkar langtímalokanir teknar af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Lokanirnar geta átt við um einstök veiðarfæri, stærð veiðiskipa eða bann við veiðum á tilteknum tíma ársins. Tímabundnum lokunum er beitt árlega til að vernda hrygningarslóð þorsks og annarra botnfisktegunda. Einnig getur verið um alfriðun að ræða, s.s. á kóralasvæðum og öðrum viðkvæmum svæðum.

Skylt er að hirða og koma með að landi allan afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Óheimilt er að kasta afla fyrir borð og er slíkt athæfi refsivert samkvæmt lögum.
Veiði skip umfram heimildir af einhverri tegund hefur viðkomandi útgerð tækifæri til að útvega sér viðbótar aflaheimild innan tilgreinds tíma eftir löndun. Skipum er heimilt að landa litlu hlutfalli af afla án þess að hafa fyrir því veiðiheimildir. Verðmæti slíks afla rennur í rannsóknasjóð sem ætlaður er til að styrkja sjávarrannsóknir. Fiskistofa og Hafrannsóknastofnunin rannsaka og meta brottkast afla. Niðurstöður rannsóknanna hafa sýnt að brottkast frá íslenskum fiskiskipum er óverulegt.

Markvisst er unnið að því að efla vistkerfisnálgun við stjórnun fiskveiða á Íslandi. Vaxandi áhersla er lögð á rannsóknir og þróun aðferða á þessu sviði og veiðiráðgjöf sem tekur tillit til ýmissa samverkandi þátta í vistkerfinu, s.s. samspils tegunda, umhverfisbreytinga og fjölstofnaáhrifa. Jafnframt er lögð áhersla á að efla rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfið, sér í lagi á hafsbotninn og lífríki hans. 

Hér er hægt að hlaða niður yfirlýsingu um ábyrgar fiskveiðar (á íslensku) frá árinu 2007.

Aflamark

Á vef Fiskistofu má finna nánari upplýsingar um fiskveiðistjórn á Íslandi, um veiðigjöld, veiðisvæði, vigtun afla o.fl.

Veiðieftirlit

Um veiðieftirlit á Íslandi sjá Fiskistofa og Landhelgisgæslan.

Samtök

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
Félag smábátaeigenda