Iceland Responsible Fisheries

Ábyrgar veiðar - fiskur til framtíðar

Aukin vitund almennings um umhverfismál eflir þá kröfu að fiskveiðum sé stjórnað með ábyrgum hætti. Kaupendur sjávarafurða og neytendur um allan heim leggja áherslu á að sjálfbær nýting sé höfð að leiðarljósi.

Upprunamerki fyrir íslenskar sjávarafurðir og vottun ábyrgra fiskveiða Íslendinga eru markaðstæki sem gefur framleiðendum og seljendum íslenskra sjávarafurða tækifæri til að staðfesta frumkvæði sitt í að mæta kröfum markaðarins með hagsmuni framtíðar kynslóða að leiðarljósi. Með markvissu innra starfi sjávarútvegsins og viðeigandi kynningarátaki er unnið að því að skapa íslenskum sjávarútvegi og íslenska merkinu traust og virðingu og treysta þannig stöðu íslensks sjávarútvegs á samkeppnismörkuðum.

Þróun verkefnisins

Árið 2007 var yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga gefin út, en hana undirrituðu sjávarútvegsráðherra, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, fiskistofustjóri og formaður Fiskifélag Íslands, en verkefnið um ábyrgar veiðar hefur frá upphafi verið unnið á vettvangi Fiskifélagsins. Yfirlýsingin var svar við kröfum markaða um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og hafði þann tilgang að upplýsa kaupendur um hvernig stjórnun fiskveiða er háttað á Íslandi og að stjórnunin væri byggð á bestu vísindalegri þekkingu. Jafnframt kemur fram að íslensk stjórnvöld skuldbindi sig að fara að öllum alþjóðalögum og samningum um umgengni við auðlindir sjávar, sem þau hafa undirritað.

Í framhaldinu var ákveðið að auðkenna íslenskar sjávarafurðir sem unnar eru úr afla í íslenskri lögsögu með íslensku merki og jafnframt að vinna að því að fá vottun þriðja aðila á veiðum Íslendinga. Stofnuð var tækninefnd undir forystu Kristján Þórarinssonar og vann hún kröfulýsingar og ýmsa tæknilegar útfærslur verkefnisins í samráði við vottunaraðilann Global Trust.

Framkvæmd verkefnisins

Verkefnið er til komið vegna frumkvæðis aðila í íslenskum sjávarútvegi. Tæknileg framkvæmd verkefnisins hefur frá upphafi verið unnin á vettvangi Fiskifélags Íslands en hefur nú verið fært í sérstakt sjálfseignarfélag, Ábyrgar fiskveiðar ses. Finnur Garðarsson er verkefnisstjóri og veitir allar upplýsingar um tæknilega framkvæmd, umsókn um vottun o.þ.h. í síma 896 2400, finnur@irff.is.

Íslandsstofa sér um kynningarstarf á mörkuðum fyrir íslenskar sjávarafurðir undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Fagráð sjávarútvegs hjá Íslandsstofu starfar sem bakhjarl verkefnisins í mótun áherslna í markaðsstarfi. Í því eru tíu aðilar úr útgerð, vinnslu og markaðsfyrirtækjum í sjávarútvegi, auk fulltrúa úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Markmiðið er að skapa verðmæta ímynd með því að tengja saman íslenskan uppruna afurðanna og ábyrgar fiskveiðar. Markaðsstjóri verkefnisins er Guðný Káradóttir, gudny@islandsstofa.is.