Fréttir og útgáfa

21.11.2013

Íslenskur saltfiskur sækir fram í Suður Evrópu

Mikill áhugi er bæði á Íslandi og íslenskum saltfiski í Portúgal og á Spáni ef marka má viðbrögð þarlendra fjölmiðla við kynningum á íslenskum saltfiski að undanförnu. Fjöldi fólks lagði leið sína í litla Eldhúsið, táknmynd íslenska þorpsins, sem komið var fyrir á fjölförnum stöðum í Lissabon og Bilbao núna í nóvember. Þar gafst almenningi færi á að bragða íslenskan gæðasaltfisk úr úrvalshráefni.

Kynningin er liður í markaðssamstarfi fyrirtækja í saltfiskvinnslu og útflutningi en alls eru 26 fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu. Lögð er áhersla á gæði og ferskleika íslenskra saltfiskaurða undir kjörorðinu „Taste and share the secret of Icelandic Bacalao“.

„Við höfum þegar staðið fyrir kynningum í Barcelona, Bilbao og Lissabon þar sem við höfum átt gott samstarf við kokka og hágæða veitingastaði. Það hefur verið gaman að sjá hversu sterk og lifandi tengsl fólks í þessum löndum eru við íslenskan saltfisk. Þarna skiptir góð ímynd Íslands líka miklu máli. Unnið er að því að auka umfjöllun um íslenskan saltfisk í fjölmiðlum, vef- og samfélagsmiðlum. Þá verður uppskriftasamkeppni á Facebook þar sem ferð til Íslands og íslenskur saltfiskur eru á meðal vinninga,“ segir Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu sem sér um framkvæmd verkefnisins.

Ávinningur af þessu verkefni er nú byrjaður að koma í ljós. „Þessi fyrstu skref eru mjög jákvæð. Mikil áhugi fjölmiðla vekur vonir um að verkefnið komi til með að skila okkur árangri og geti orðið fyrirmynd við áframhaldani kynningu á íslenskum sjávarafurðum,“ segir Skjöldur Pálmason, einn þátttakenda í verkefninu og formaður Íslenskra saltfiskframleiðenda.

Stofnaðilar verkefnisins eru Íslenskir saltfiskframleiðendur, Íslandsstofa og stjórnvöld. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar hafa tekið virkan þátt í kynningunum auk fulltrúa fyrirtækjanna. Sendiherra Íslands í París tók þátt í kynningunni í Barcelona ásamt ræðismanninum þar og í Lissabon tóku þátt konsúllinn og sendiráðunautur í London sem sinnir Portúgal.

Hér má finna ítarlegri upplýsingar um verkefnið (pdf)

Nánari upplýsingar veitir:

Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu, gudny@islandsstofa.is, Sími: 590 9320 og 693 3233