Fréttir og útgáfa

14.12.2017

"Hættur leynast í vottuninni" segir Kristján Þórarinsson

Í Fiskifréttum 14. des. er viðtal við Kristján Þórarinsson stofnvistfræðing hjá SFS. Kristján hefur tekið þátt í alþjóðlegu starfi í vottunarmálum, m.a. mótun leiðbeininga Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameiðuðu þjóðanna (FAO) um umhverismerkingar. Hann vann einnig ötullega að þróun á stöðlum Iceland Responsible Fisheries. Við grípur hér niður í viðtalið við Kristján. 

„Vottunin er vegna þess að við þurfum að staðfesta það við þá sem kaupa fiskinn að við séum að gera það sem við sögðumst ætla að gera,“ segir Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur hjá SFS, sem er einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar í umhverfismerkingum og vottun ábyrgra fiskveiða, en Íslendingar hafa lengi verið leiðandi á því sviði. „En þegar farið er að hafa endaskipti á hlutunum og farið að votta veiðar sem ekki uppfylla kröfurnar, þá er það alvarlegt.“

...

Kristján segir helsta áhyggjuefnið alltaf hafa verið að menn hafi endaskipti á hlutunum. Telji vottunina koma fyrst og lagfæringarnar eftir á. „Við Íslendingar höfðum auðvitað verið að því áratugum saman að efla og bæta fiskveiðistjórnun, að læra af reynslunni og koma okkur upp skynsamlegri nýtingarstefnu fyrir sem flestar fisktegundir. Það er ekki eitthvað sem vottunarfólk hefur gert.“

...

„Út frá mínum bæjardyrum séð er það þannig að við eigum að hafa hlutina í lagi. Það eru okkar hagsmunir. Og það eru alþjóðlegar kröfur sem Íslendingar hafa staðið að því að búa til sem við þurfum að fylgja.“

...

„... Vottun er svo eitthvað sem kemur eftir á til að staðfesta okkar skilaboð og skilaboð sjávarútvegsins, þar sem þau eiga við, um að hlutirnir séu í lagi. Og þá færðu þriðja aðila til að stað- festa það.“ Kristján segir vottun í sjávarútvegi að mörgu leyti frábrugðna gæðavottun annars staðar í atvinnulífinu. „Venjulega er það þannig þegar einhver er að biðja um vottun á einhverju þá er það einkaaðili sem sækir um vottun á því að hans starfsemi, sem hann hefur fulla stjórn á sjálfur, uppfylli kröfur sem eru í stöðlum og hann vill fá vottun á því. Þá skiptir það máli að þriðji aðili komi og stað- festi þau skilaboð að þetta sé í lagi. En þegar það eru fiskveiðar sem þarf að votta þá eru það ekki aðeins þeir sem eiga og reka fyrirtækin sem þurfa að uppfylla kröfurnar, heldur eru það ríkin sem stjórna fiskveiðunum sem þurfa að uppfylla kröfurnar. Þannig að vottunin er ákveðin starfsemi á markaði sem er til þess gerð að beita fullvalda stjórnvöld þrýstingi varðandi aðgerðir sínar í fiskveiðistjórnun. Þetta er sem sagt ekki á forræði einstakra fyrirtækja.“

...

„Spurningin er miklu fremur sú hvort það sé hægt að gera þær kröfur til vottunaraðila að þeir fari eftir leiðbeinandi reglum frá Sameinuðu þjóðunum þar sem menn hafa komið saman og allir fengið tækifæri til að hafa áhrif á þessar leiðbeinandi reglur. Þetta var lykillinn, að stjórnvöld væru að fara eftir þeim grunnreglum í fiskveiðistjórnun sem þau sjálf hafi samþykkt á alþjóðavettvangi, ekki nýjum reglum einhverra úti í bæ sem vilja leiða þau út af sporinu.“

Sjá nánar í 50. tbl. Fiskifrétta, 14. desember 2017.