Fréttir og útgáfa

7.7.2017

Aflaregla fyrir íslenska sumargotssíld, keilu og löngu

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur staðfest aflareglu fyrir íslenska sumargotssíld, keilu og löngu til næstu fimm ára.

Setning aflareglu, eða sambærileg aðferðafræði, er forsenda IRF vottunar. Veiðar á þessum þremur fisktegundum eru í forvottunarferli skv. IRF fiskveiðistjórnunarstaðlinum. Því eru nú miklar líkur á að fullnaðarvottun fáist á veiðar þessarra tegunda á næstu misserum.

Reglan hvað varðar síldina byggir á því að veiða 15% af viðmiðunarstofni (lífmassi 4+ ára í byrjun stofnmatsárs), ekkert er tekið tillit til sýkingarhlutfalls í stofninum á þeim tímapunkti, og aðgerðarmörk, þar sem draga skal úr veiðihlutfalli eru 200 þúsund tonn.

Nýja aflaregla sumargotssíldarinnar gefur 38.712 tonna aflamark á næsta fiskveiðiári, en gamla viðmiðunarreglan hefði gefið 40.100 tonn.

Aflaregla keilu gerir ráð fyrir að aflamark ákvarðist sem 13% af stofni keilu 40 cm og stærri á stofnmatsári. Samkvæmt þessari aflareglu hefur aflamark á næsta fiskveiðiári (2017/2018) verið ákveðið 4370 tonn en var 3780 á síðasta fiskveiðiári. Gert er ráð fyrir að stofninn standi í stað á næstu árum.

Aflaregla löngu er svipuð og í keilu, aflamark ákvarðast sem 18% af stofni löngu 75 cm og stærri á stofnmatsári. Samkvæmt þessari aflareglu hefur aflamark verið ákveðið 8598 tonn á næsta fiskveiðiári en var 9343 tonn á því síðasta.

Sjá frétt ráðuneytisins um sumargotssíld og keilu og löngu